Heilsueflandi víddir sirkuslista

Það er ekki bara skemmtilegt að spreyta sig á sirkuslistum heldur styrkja þær bæði líkamlega, andlega og félagslega þætti.

Líkamlegur ávinningur

Líkt og aðrar íþróttir þroska sirkuslistir líkamlega þætti á borð við samhæfingu, fínhreyfingar, jafnvægisskyn, rýmisgreind, úthald og styrk. Áhersla er lögð á að kynna rétta líkamsbeitingu. Þar sem sirkuslistir sameina einbeitingu og líkamlega hreyfingu henta þær oft mjög vel þeim sem finnst kyrrseta erfið og einnig höfða þær oft vel til þeirra sem ekki finna sig í hefðbundnum hópíþróttum.

Andlegur ávinningur

Sirkuskennsla sameinar einbeitingu hugar og líkama og fer þannig fram að unnið er í litlum skrefum og ný trix kynnt inn eftir því sem geta nemanda vex. Þótt kennt sé og leikið í hóp er nægt svigrúm fyrir einstaklinga til að læra á mismunandi hraða, allt eftir eigin getu og löngun. Leikurinn veitir áskorun sem er nærð af þeirri gleði sem það veitir að ná valdi á næsta skrefi. Við iðkun sirkuslista lærum við líka að setja okkur sjálf markmið og vega og meta eigin frammistöðu og framfarir í stað þess að fylgjast með teljara á skjá eða fylla upp í staðlað skema.  

Sirkuslistirnar hafa jákvæð áhrif á andlegan þroska í heimi þar sem tölvur og snjalltæki fanga í síauknum mæli athygli og tíma bæði barna og fullorðinna. Sirkuslistirnar eru tækifæri til þess að æfa okkur utan skjásins í því að einbeita okkur að settu marki og útiloka utanaðkomandi áreiti á meðan við æfum okkur. Margar sirkuslistanna eru frábært verkfæri til að ná tökum á núvitund.

Í sirkussmiðjunni lærum við að það er í lagi að gera mistök og að það er að gera mistök er einfaldlega hluti af því að tileinka okkur nýja færni. Við lærum sviðsframkomu og þegar við setjum upp trúðanefið og sköpum trúðinn okkar fáum við aukið frelsi til að víkka þægindarammann.  

Sirkuslistirnar efla sköpunargleði og ímyndunarafl. Þegar kemur að atriðasmíði er auðvelt að tengja þær öðrum áhugamálum eða persónulegum smekk. Þó svo við byggjum á ákveðinni grunntækni þá er alltaf rými fyrir sköpunargleðina innan sirkussins. Við röðum trixunum saman í okkar eigin rútínur og finnum jafnvel upp eigin trix. Við klæðum rútínurnar okkar í mismunandi búninga með því að vinna við mismunandi tónlist, leika með hraða, vera kúl á því með sólgleraugu eða kómísk með trúðsnef. Við getum spunnið eigin sketsa og sögur utan um atriðin okkar.

Félagslegur ávinningur

Hægt er að stunda sirkuslistir einn, í pörum eða í hópum. Sirkuslistirnar þroska félagsvitund og æfa okkur í að vinna vel saman, bæði þegar við hjálpumst að við að læra trix og leiðbeina hverju öðru og svo auðvitað líka þegar við vinnum saman eða í litlum hópum. Það að læra sirkuslistir saman í jákvæðu hvetjandi umhverfi styrkir hópinn og samskipti innan hans.

Við lærum að í sirkusheiminum hafa allir eitthvað fram að færa til heildarmyndarinnar sama hvort við kunnum tvöhundruð trix eða bara tvö, hvort við erum sjö, sautján eða sjötíu ára og sama hverskonar líkama við höfum. Við lærum að meta fjölbreytileikann og sjá styrkinn í því að við erum ólík.

Margar sirkuslistanna eru frábært verkfæri til að yfirstíga feimni við það að snerta annað fólk eða vera snert á heilbrigðan hátt í öruggu rými. Við lærum um samþykki og persónulegt rými og tileinkum okkur meðvitund um mikilvægi þess að bera umhyggju fyrir öruggi hvers annars.