Fjölskyldusirkushelgar Húlladúllunnar í Eyþingi

Fjölskyldusirkushelgar Húlladúllunnar í Eyþingi er skemmtilegt og spennandi verkefni sem er unnið undir formerkjum heilsueflandi nálgunnar. Dagskráin er sérstaklega sniðin að því að fjölskyldan og samfélagið geti öll tekið þátt saman þvert á aldursmörk og getustig. Helgarnar verða fjórar talsins árið 2019 og fóru fyrstu þrjár helgarnar fram í maí í Fjallabyggð, Eyjafjarðarsveit og í Skútustaðahreppi. Fjórða og síðasta helgin í ár fer fram Þórshöfn 23. – 24. nóvember. Smellið hér til að skrá þáttakendur til leiks á Þórshöfn: https://forms.gle/GbyhsnqpuhxPW48z6

Fjölskyldusirkushelgin felur í sér tveggja daga kennslu þar sem þáttakendur fá að prófa hinar ýmsu sirkuslistir og og sirkusáhöld undir leiðsögn tveggja frábærra kennara. Kennt er í sex klukkutíma laugardag og sunnudag með klukkutíma hádegishléi hvorn dag. Áhugi samfélaganna hefur verið mikill og nýting þeirra plássa á námskeiðunum mjög góð. Yngstu þáttakendurnir hafa verið á leikskólaaldri og elstu þáttakendurnir rétt undir sjötugu. Kynjahlutföll þáttakenda hafa verið nokkuð jöfn.  Húlladúllan Unnur Máney leiðir kennsluna og með henni vinna Erna Héðins, kennari og markþjálfi og Syl Roulet, sirkuskennari frá Sirkusskólanum í Brussel

Þáttökukostnaði er haldið í lágmarki til þess að þjóna markmiði verkefnisins og gera fjölskyldum kleyft að taka þátt saman án þess að kostnaður sé hindrun. Aðeins er rukkað 2000 króna skráningargjald fyrir hvern þáttakanda.  Hér er því á ferðinni frábært tækifæri fyrir alla aldurshópa til þess að fá að prófa eitthvað nýtt og spennandi saman og njóta þess að læra nýjar aðferðir til að auka heilsu og vellíðan. 

Það að spreyta sig á sirkuslistum saman er frábær leið fyrir börn, unglinga og foreldra til að njóta skemmtilegrar og uppbyggilegrar samveru. Heilbrigð samvera fjölskyldunnar við skapandi og skemmtilega iðju hefur mikið forvarnargildi. Þar sem verkefnið er hannað fyrir smærri byggðarlög er helgin einnit til þess fallin að styrkja tengsl á milli fjölskyldna og einstaklinga í samfélaginu.  Verkefnið fellur þannig að hugmyndum um forvarnir hvað varðar áfengis- og vímuefnaneyslu þar sem heilbrigð samvera barna, foreldra og samfélags er þar í forgrunni. Það að læra sirkuslistir saman í jákvæðu hvetjandi umhverfi styrkir samband foreldra og barna og getur verið fyrirbyggjandi hvað kvíðaraskanir varðar. Sýnt hefur verið fram á að börn sem eru hvött til að taka áhættu undir öruggri handleiðslu foreldra eru síður útsett fyrir kvíðaröskunum. 

Sirkuslistirnar hafa jákvæð áhrif á andlegan þroska í heimi þar sem tölvur og snjalltæki fanga í síauknum mæli athygli og tíma bæði barna og fullorðinna. Sirkuslistirnar eru tækifæri til þess að æfa okkur utan skjásins í því að einbeita okkur að settu marki og útiloka utanaðkomandi áreiti á meðan við æfum okkur. Margar sirkuslistanna eru frábært verkfæri til að ná tökum á núvitund. 

Markmið kennslunnar er að þáttakendur geti nýtt sér það sem þau læra til þess að halda áfram að njóta þess að skemmta ser við það sem þau lærðu. Þáttakendur fá kennslugögn sem innihalda minnislista yfir það sem kennt var yfir helgina og leiðbeiningar um það hvar á vefnum sé að finna góð kennslumyndbönd fyrir þau sem vilja halda áfram að bæta við þá kunnáttu sem þau öðluðust um helgina. 

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Norðurorku ásamt stuðningi þeirra sveitarfélaga sem taka þátt, í formi afnota af aðstöðu í hentugum íþróttasal og afnot af dýnum fyrir loftfimleika- og sirkusfimleikakennslu. Húlladúllan leggur fram allan sirkusbúnað.

Smellið hér til þess að lesa um heilsueflandi víddir sirkuslistanna!

Smellið hér til að skrá þig og þína til leiks!